
Enska knattspyrnugoðsögnin Wayne Rooney telur að Liverpool eigi í erfiðleikum þessa stundina vegna skorts á leiðtogum innan liðsins.
Englandsmeistararnir hafa tapað fjórum leikjum í röð í ensku úrvalsdeildinni og sitja nú í sjöunda sæti, sjö stigum á eftir toppliði Arsenal.
„Enginn sá þetta koma. Þetta hefur skollið á þeim hratt og þeir eiga erfitt með að finna lausn. Þetta er tíminn þar sem stjórinn og leiðtogarnir verða að bregðast við,“ segir Rooney.
Rooney nefndi sérstaklega Virgil van Dijk og Mohamed Salah, sem báðir skrifuðu undir nýja samninga á síðasta ári.
„Þeir hafa ekki sýnt þá forystu sem þarf. Líkamstjáning segir mikið og mér finnst við sjá að þeir tveir komi ekki með sömu orkuna og áður. Þegar tveir bestu leikmenn liðsins eru þannig, þá hefur það áhrif á alla aðra.“