

Danski framherjinn, Patrick Pedersen, skrifaði sig á spjöld sögunnar í sumar þegar hann varð markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi. Allt stefndi í draumatímabil framherja Vals þegar hann sleit hásin í úrslitum bikarsins.
Pedersen hafði þá slegið markamet Tryggva Guðmundssonar í efstu deild og var á góðri leið með að bæta markametið á einu stöku tímabili. Í bikarúrslitum sleit Pedersen hásin þar sem Valur tapaði gegn Vestra, liðið var þá í frábærri stöðu í deildinni en saknaði síns besta manns svakalega á endasprettinum
„Þetta er farið að líta aðeins betur út, ég er byrjaður að labba án þess að vera í hlífðarskó. Ég var í honum í sex vikur, það er smá sýking í kringum þetta sem er þó ekki í hásininni. Ég er á leið til sérfræðings á morgun en batinn gengur hægt en vel,“ sagði Pedersen í samtali við 433.is. í dag.
Pedersen er 33 ára gamall og kom fyrst til Íslands árið 2013 og gekk þá í raðir Vals, hann hefur síðan þá stærstan hluta leikið með liðinu fyrir utan tvö stutt stopp í atvinnumennsku.
Sá danski verður lengi frá en býst við því að geta farið af stað í mars. „Það er talað um sex mánuði frá aðgerð og þangað til ég get byrjað að hlaupa. Það er þá í mars, þetta fer allt eftir því hvernig endurhæfingin er. Ég geri ekki ráð fyrir því að vera með í byrjun næsta tímabils, ég þarf að æfa vel til að komast aftur í mitt gamla form.“

Þrátt fyrir að hafa misst af síðustu umferðum mótsins var Pedersen kjörinn leikmaður ársins af leikmönnum Bestu deildarinnar um helgina. Eitthvað sem hann er stoltur af.
„Ég er mjög stoltur, svona verðlaun gleðja og sérstaklega þegar það kemur frá leikmönnum deildarinnar. Þá er það merki um að ég hafi verið að gera rétta hluti, ég er stoltur af því. Þetta er gott fyrir mig persónulega en við allir sem erum í Val getum verið svekktir þegar við horfum til baka. Að tapa í bikarúrslitum og missa góðu stöðu í deildinni.“

Eins og fyrr segir bætti Patrick markamet Tryggva Guðmundssonar í efstu deild og var nálægt því að slá metið yfir flest mörk á einu tímabili.
„Ég er klárlega glaður með það að hafa náð því að bæta metið fyrir meiðslin. Ég var svekktur að ná metinu ekki yfir flest mörk á einu tímabili en reyni að bæta það þegar ég kem til baka. Ég hugsa bara um endurhæfinguna núna, ég hef aldrei meiðst svona áður og vegurinn tað því að komast aftur á völlinn er langur.“
„Í endurhæfingunni er þó gott að hafa það markmið á blaði að bæta metið yfir flest mörk á einu tímabili, það gæti orðið erfitt á næsta ári en við sjáum til. Ég var svekktur að ná ekki að klára tímabilið, ég held að ég hefði klárað metið ef ég hefði haldist heill. Það er persónulegt markmið fyrir mig að eiga en stærsta markmiðið er að fara að vinna titla með Val, það er komin smá tími frá síðasta titli og við verðum að fara að breyta því.“

Valur var í baráttu um sigur í Bestu deildinni þegar liðið fór í bikarúrslit, leikur sem tapaðist og við það breyttist gengi Vals í deildinni.
„Við vorum á flugi fyrir bikarúrslitin, við vorum að gera vel en svo tapast sá leikur. Það var snúningspunktur, ég meiðist og fleira í þeim dúr. Það var erfitt fyrir liðið, við viljum keppa um titilinn á hverju tímabili. Það var stórt tækifæri í ár miðað við síðustu tímabil. Það eru allir svekktir hvernig þetta endaði,“ sagði danski framherjinn að lokum í samtali við 433.is.