
Edda Sif Pálsdóttir og Gunnar Birgisson, íþróttafréttamenn á RÚV, voru gestir Helga Fannars Sigurðssonar í Íþróttavikunni hér á 433.is þennan föstudaginn.
Viktor Bjarki Daðason, 17 ára gamall Framari, skoraði fyrir FC Kaupmannahöfn í Meistaradeildinni gegn Dortmund á dögunum. Þetta hratt af stað umræðu í þættinum um hvort Íslendingar þyrftu ekki að vera duglegri við að gefa ungum leikmönnum traustið í deildinni hér heima.
„FCK er miklu, miklu stærra en nokkuð á Íslandi, og þeir eru svo óhræddir við að henda mönnum út í djúpu laugina. Við erum ragir við það og bitnar það ekki bara á okkur til lengri tíma?“ sagði Helgi.
„Jú, en fólk virðist vera sátt við að setja plástur á það með Íslandsmeistaratitlum eða bikarmeistaratitlum, þá flýtur allt. KA-lið verður bikarmeistari í fyrra með meðalaldur sem er örugglega norðan við 30 ár. Sama með Víking og Breiðablik undanfarin ár, þetta er í kringum 30 ára meðalaldur. Þetta þekkist hvergi í deildum á Norðurlöndum sem við viljum vera að bera okkur saman við, því miður,“ sagði Gunnar þá og hélt áfram.
„Þvert á móti erum við að sjá lækkandi meðalaldur annars staðar. Við erum að sjá 18 ára gamlan strák skora fyrir Chelsea í vikunni, 17 ára strák fyrir Bayern Munchen. Það kom strákur fæddur seint árið 2009 inn á fyrir Arsenal í ensku úrvalsdeildinni. Ef það er vilji er þetta hægt. En svo er spurning hvort þú sért til í að spila á ungum leikmönnum á kostnað mögulega úrslita og árangurs.“
Nánar í spilaranum.