

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, hefur keypt sér nýtt íbúðarhúsnæði í Barcelona á sama tíma og hann og eiginkona hans Cristina Serra virðast vera að ljúka skilnaði eftir 30 ára hjónaband.
Samkvæmt spænskum fjölmiðlum hefur Guardiola fest kaup á glæsilegri íbúð í hverfinu Pedralbes, skammt frá heimili fjölskyldunnar sem hann og Serra áttu saman áður en fréttir af skilnaðinum komu fram í janúar.
Kaupin teljast marka nýtt tímabil í einkalífi Guardiola, sem lengi vel þótti eiga eitt stöðugasta samband fótboltans. Að sögn spænskra miðla er skilnaðurinn nú talinn yfirvofandi.
Nýja eignin er sögð vera á rólegum og grænum stað í sama hágæða hverfi og fyrri heimili hans, þar sem hann geti slakað á tekið sér hlé frá fótboltanum og notið kyrrðar, eins og það er orðað í spænskum fjölmiðlum.
Cristina Serra og Pep Guardiola kynntust á unglingsárum sínum í Barcelona og hafa staðið saman í gegnum feril hans bæði sem leikmaður og þjálfari hjá Barcelona, Bayern München og Manchester City. Þau eiga þrjú börn.
Guardiola er nú á sínu níunda tímabili hjá City og hefur unnið fjölda titla með félaginu.