

Manchester United hefur gert ensku úrvalsdeildinni viðvart vegna leikjadagskrárinnar, eftir að tveir leikir liðsins fyrir jól voru færðir yfir á mánudagskvöld.
Félagið hefur haft samband við deildina og framkvæmdastjóri United, Omar Berrada, ræddi málið við Richard Masters hjá ensku úrvalsdeildinni
Heimaleikur United gegn Bournemouth og útileikurinn gegn Wolves voru báðir færðir á mánudagskvöld í nýjustu breytingum. Fyrir það hafði leikurinn gegn West Ham verið settur á miðvikudag.
Að auki var leikurinn gegn Everton á Old Trafford í næsta mánuði þegar færður á mánudag, sem þýðir að Manchester United leikur aðeins einn heimaleik á laugardegi á Old Trafford á tólf vikna tímabili, leikinn gegn Brighton núna um helgina.
Stuðningsmenn þurfa einnig að ferðast í erfiða útileiki á óþægilegum tímum: gegn Tottenham í hádegisleik á laugardegi 8. nóvember og gegn Crystal Palace klukkan 12 á sunnudegi 30. nóvember á Selhurst Park.
Heimildir innan félagsins segja stjórnendur skilja að stuðningsmenn séu ósáttir, þar sem mánudags- og miðvikuleikir valdi bæði auknum ferðakostnaði og skipulagsvandræðum.
Hins vegar er bent á að United hafi samþykkt að spila fleiri leiki á mánudögum og föstudögum sem hluta af nýjum sjónvarpssamningi deildarinnar.