

Bruno Fernandes, fyrirliði Manchester United, gæti yfirgefið félagið næsta sumar og það fyrir um 57 milljónir punda, samkvæmt fjölmiðlum á Englandi.
31 ára Portúgalinn hefur verið orðaður við brottför undanfarna mánuði og fékk í sumar risatilboð frá Al-Hilal í Sádi-Arabíu. Hann ákvað þó að hafna því og halda áfram á Old Trafford, þar sem hann telur sig enn geta hjálpað United að berjast aftur um titla, þrátt fyrir sveiflukennd ár hjá félaginu.
Nýjar fregnir herma þó að samningur Fernandes innihaldi sérstakt ákvæði sem gæti haft áhrif á framtíð hans. Þar kemur fram að hann geti gengið til liðs við félag utan ensku úrvalsdeildarinnar fyrir 57 milljónir punda, en ákvæðið gildir ekki fyrir önnur ensk lið.
Það þýðir að félög í Sádi-Arabíu, Spáni eða Ítalíu gætu bundið enda á dvöl hans hjá United næsta sumar ef þau ákveða að virkja ákvæðið.
Al-Hilal gæti því komið aftur til sögunnar og reynt enn einu sinni að ná í leikmanninn, sem er talinn lykilmaður bæði hjá United og portúgalska landsliðinu.
Framtíð Fernandes gæti því orðið eitt af stóru málunum fyrir næsta leikmannaglugga.