

Pep Guardiola telur að Matheus Nunes geti orðið einn fremsti bakvörður heims eftir að hafa sýnt miklar framfarir í nýrri stöðu á þessu tímabili.
Nunes, sem Manchester City keypti frá Wolves fyrir 53 milljónir punda sem miðjumann, hefur átt erfitt uppdráttar í sinni upprunalegu stöðu.
Guardiola hóf því að nota Portúgalann aftar á vellinum á síðasta tímabili og hefur hann nú næstum eingöngu spilað í hægri bakverði.
Nunes hefur áður leikið bæði í vinstri bakverði og á kantinum þegar City glímdi við meiðsli og breytta skipan liðsins, en eftir að Kyle Walker fór til AC Milan í janúar hefur Nunes tekið yfir stöðuna hægra megin.
Guardiola trúir því að þessi breyting geti markað nýjan kafla á ferli leikmannsins. „Matheus getur orðið ótrúlegur hægri bakvörður,“ sagði Guardiola.
„Hann er varnarsinnaður miðjumaður með ótrúlega líkamlega eiginleika sem nýtast mjög vel þegar hann fer aftur í vörn. Ef hann er einbeittur getur hann orðið einn besti leikmaður heims í þessari stöðu.“
Stjórinn bætti við að lykillinn væri hugarfarið: „Við höfum rætt þetta mikið. Þetta snýst um að breyta hugsun og trúa því að þú getir gert þetta. Hann hefur sérstaka eiginleika sem henta mjög vel út á kantana. Í síðustu tveimur til þremur leikjum hefur hann verið ótrúlegur.“