

Gary Neville hefur endurvakið deilu sína við eiganda Nottingham Forest, Evangelos Marinakis, og kallað framkomu félagsins við brottrekstur Ange Postecoglou óvirðulega og lítt glæsilega.
Postecoglou var látinn fara innan við hálftíma frá lokaflautinu eftir 0-3 tap gegn Chelsea um síðustu helgi, sem batt enda á stuttan tíma hans í starfi eftir átta leiki án sigurs.
Forest staðfesti brottreksturinn nánast um leið og leikurinn var búinn, en Sean Dyche var svo ráðinn í framhaldinu og stýrði liðinu til sigurs gegn Porto í Evrópudeildinni á fimmtudag.
Neville, sem hefur verið bannað að fara á City Ground síðan í fyrra eftir að hann gagnrýndi félagið harðlega, sagði í hlaðvarpinu Stick to Football að forráðamenn félagsins hefðu átt að sýna meira virðingu.
„Að reka stjóra 15 eða 20 mínútum eftir leik er ekkert nema virðingarleysi,“ sagði Neville.
„Jill [Scott] orðaði það vel, þú átt að gera þetta með reisn. Gefa tíma, leyfa stjóranum að tala við starfsfólk og leikmenn áður en það er tilkynnt opinberlega.“
Neville rifjaði upp eigin reynslu sem eigandi Salford City. „Ég hef rekið fjóra þjálfara augliti til auglitis. Það er eitt það versta sem þú gerir í þessu starfi. Þú hugsar ekki bara um tímasetninguna, heldur hvernig þú berð skilaboðin fram af virðingu.“
Deilan heldur þar með áfram, fimm mánuðum eftir að Neville var meinað að fá fjölmiðlaskírteini á síðasta heimaleik Forest á síðasta tímabili.