Skoska knattspyrnugoðsögnin Gordon Strachan segir að hann hafi eitt sinn verið látinn skipta um hótelherbergi þar sem sjálf Beyonce þurfti að komast að.
Strachan hefur þjálfað bæði skoska landsliðið og Celtic á ferlunum, auk þess sem hann lék með Manchester United á leikmannaferlinum, svo dæmi séu tekin.
Þegar skoska landsliðið kom saman í heimalandinu gisti það gjarnan á Mar Hall, glæsilegu hóteli í Glasgow, en heimsfrægt fólk héðan og þaðan átti það til að gera það einnig.
Í miðju landsliðsverkefni þurfti Strachan að skipta um herbergi til að Beyonce kæmist að, en hún var mætt til að halda tónleika í borginni.
„Þetta var frábært og ég sagði starfsmönnunum að það væri óþarfi að skipta á rúmunum. Konan mín veit ekki af þessu svo við skulum halda þessu út af fyrir okkur,“ sagði Strachan léttur í hlaðvarpsviðtali, er hann tók málið fyrir.