Það eru kannski ekki allir sammála ummælum goðsagnarinnar Paul Gascoigne en hann hefur tjáð sig um enska landsliðshópinn.
Að mati Gascoigne er Phil Foden besti leikmaður Englands í dag en hann er á mála hjá Manchester City.
Foden hefur átt nokkuð erfiðan vetur en hefur margoft í gegnum tíðina sannað það að hann býr yfir miklum hæfileikum.
,,Þú horfir á enska landsliðshópinn, þú ert með Bellingham, Grealish og Rashford. Þeir eru með virkilega sterkan hóp,“ sagði Gascoigne.
,,Foden hins vegar, það er alltaf sagt að örvfættir menn verði að góðum leikmönnum. Ég er svo hrifinn af Foden, hann er með mikil gæði og góða vél.“
,,Ég horfði á hann ekki fyrir svo löngu og ég gat ekki sleppt því að biðja hann um treyjuna. Hann gerði það og áritaði hana fyrir son minn.“