Russell Martin, þjálfari Southampton, hlær að þeim sögusögnum að Manchester United geti fengið undrabarnið Tyler Dibling á 21 milljón punda.
Dibling er gríðarlega efnilegur leikmaður og er greint frá því að Ruben Amorim og hans menn í Manchester hafi áhuga á stráknum.
Martin segir þó að Southampton sé í viðræðum við leikmanninn um framlengingu og þyrfti United líklega að borga mun hærri upphæð fyrir þennan 18 ára gamla strák.
,,Ég er ekki viss um að þið fáið vinstri fótinn hans fyrir þá upphæð,“ sagði Martin hlæjandi við blaðamenn.
,,Við höfum boðið honum samning og mjög góðan samning fyrir leikmann á hans aldri. Á þessum tímapunkti virðist umboðsmaður hans ekki vera á sama máli og það er staðan.“
,,Tyler vill skrifa undir og ég held að foreldrar hans vilji það líka – við þurfum að sjá hversu langan tíma þetta tekur.“