Stjórn KSÍ fundaði í tvígang dagana á undan áður en kynnt var að Age Hareide hefði óskað eftir því að hætta störfum. Það eina sem rætt var á þessum fundum var framtíð þjálfarans.
Til umræðu hafði verið í tvo mánuði að KSÍ ætlaði að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi Hareide sem var í gildi í lok nóvember. Margir draga það í efa að Hareide hafi hætt sjálfviljugur og sú staðreynd að stjórnin fundaði í tvígang um mál hans ýtir undir það.
Þorvaldi Örlygssyni formanni KSÍ var meðal annars falið að ræða við Hareide og taka málið áfram eins og það er orðað í fundargerð sambandsins.
Stjórnin fundaði fyrst þann 22. nóvember og var eina málið á dagskrá málefni Hareide með A-landslið karla. Sá fundur stóð. yfir í 90 mínútur.
„„Rætt um þjálfaramál A landsliðs karla. Endurskoðunarákvæði þjálfarans Åge Hareide er virkt frá 20.-30. nóvember. Jörundur Áki Sveinsson sviðsstjóri knattspyrnusviðs fór yfir verkefni, umgjörð og árangur A landsliðs karla á tíma Hareide sem þjálfara liðsins. Stjórnarmenn ræddu málin og góðar umræður sköpuðust,“ sagði í fundargerð en boðað var aftur til fundar tveimur dögum síðar.
Fundurinn á sunnudeginum tók 40 mínútur og segir í fundargerð. „Umræðum fram haldið frá síðasta fundi þar sem fundarefnið var hið sama, þjálfaramál A landsliðs karla og endurskoðunarákvæðið sem er virkt 20.-30. nóvember. Formaður og aðrir stjórnarmenn tóku til máls. Stjórn KSÍ samþykkti að fela formanni að ræða við þjálfarann og taka málið áfram,“ segir í fundargerð KSÍ.
Það var svo degi síðar sem tilkynnt var að Age hefði sjálfur ákveðið að hætta en eins og fyrr segir draga margir það í efa enda hafði mikið verið rætt um það að Þorvaldur og hans stjórn vildi skipta Hareide út. Ekki er búið að ráða eftirmann hans.