Rúm vika er frá því að Age Hareide hætti sem landsliðsþjálfari Íslands en KSÍ hefur ekki hafið samtal við Víking um Arnar Gunnlaugsson.
Arnar og Freyr Alexandersson eru mest orðaðir við starfið og umræðan um Arnar verið mjög hávær um langt skeið.
Víkingur hefur hins vegar ekki fengið simtal frá KSÍ. Þetta segir Heimir Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar Víkinga, í samtali við Fótbolta.net.
Venjan hjá KSÍ hefur verið að formaður sambandsins leiði viðræður við þjálfara A-landsliðs og því er það Þorvaldur Örlygsson sem sér um þau mál í dag.
KSÍ þarf að borga fyrir bæði Arnar og Freyr, Arnar er með samning við Víking og Freyr er með samning við Kortrijk í Belgíu.
Ekki er vitað til þess að KSÍ sé byrjað að hefja formlegt eða óformlegt samtal við Frey en samkvæmt heimildum 433.is hefur KSÍ átt nokkur óformleg samtöl við þá aðila sem sjá um mál Arnars.