Hinn skemmtilegi Ian Holloway er mættur aftur á hliðarlínuna en hann hefur verið ráðinn þjálfari Swindon Town.
Holloway er nafn sem margir kannast við en hann kom Blackpool í efstu deild á sínum tíma og starfaði þar frá 2009 til 2012.
Holloway fór síðar til Crystal Palace og svo Millwall en hans síðasta félag var Grimsby Town árið 2020.
Þessi 61 árs gamli stjóri ætlar nú að reyna fyrir sér í fjórðu efstu deild Englands en Swindon hefur verið í vandræðum á tímabilinu.
Holloway var fínasti leikmaður á sínum tíma og spilaði sem miðjumaður hjá liðum eins og Bristol Rovers, Brentford og Queens Park Rangers.
Mark Kennedy var áður þjálfari Swindon en hann var rekinn í gær eftir aðeins fimm mánuði í starfi.