Rætt var um málefni Fram í hlaðvarpi Fótbolta.net sem kom út í gær og fór umræðan út í það að ræða framtíð Rúnars Kristinssonar sem hefur verið orðaður við þjálfarastarfið hjá VAl.
Rúnar er á sínu fyrsta ári með Fram en forráðamenn Vals og Fram hafa sagt þessar sögur á sandi byggðar, ekkert sé til í þeim.
Elvar Geir Magnússon ritstjóri Fótbolta.net segir leiðinlegar sögur oftar koma frá Fram en öðrum félögum. „Mér finnst eins og neikvæðar slúðursögur séu algengari en hjá öðrum félögum, alltaf að heyra að það séu vandræði með að borga laun,“ sagði Elvar Geir.
Elvar Geir segir að ef sagan um vandræði með laun og að greiða þau hjálp ekki Rúnari Kristinssyni í hans starfi hjá Fram. „Það gerir starf hans erfiðara ef þeir eru í vandræðum með að borga laun.“
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson tók þá til máls. „Einn ákveðinn maður á bak við tjöldin sem er að segja frá þessu, ég veit ekki hver það er en hef heyrt hver það er,“ sagði Guðmundur og ýjaði að því að það væri maður í herbúðum Fram sem væri að leka þessum sögum út um allt.