„Ef þú heldur að ég sé góður, þá skaltu bíða þangað til að þú sérð Fabio Paim,“ sagði Cristiano Ronaldo árið 2003 um samlanda sinn frá Portúgal.
Paim og Ronaldo komu upp í gegnum unglingastarf Sporting Lisbon og spiluðu meira en 40 landsleiki saman fyrir yngri landslið Portúgals.
21 ári síðar er staða þeirra í lífinu nokkuð frábrugðin, Ronaldo hefur verið í hópi bestu knattspyrnumanna í heimi en Paim í tómu veseni.
Paim átti að verða stjarna og þegar hann var 13 ára gamall fór Sporting að borga honum um 800 þúsund krónur á viku. Hann fékk einnig 20 milljónir í bónus á ári.
Paim fór á lámi til Chelsea árið 2008 en spilaði aðeins með varaliði þeirra og fljótlega fór allt í skrúfuna.
Paim var fyrir nokkrum árum dæmdur í fangelsi fyrir að flytja inn fíkniefni til Portúgals og nú eftir afplánun vill hann fara nýja leið.
Paim vill gerast klámmyndaleikari. „Ég vil ólmur komast í það að leika í klámi,“ segir Paim við fjölmiðla.
„Ég er ekkert að grínast, þetta væri draumurinn minn. Ég á ekki neina kærustu, ég er einhleypur.“