Georgina Rodriguez unnusta Cristiano Ronaldo var fegin að losna frá Manchester og flytja þaðan burt þegar Ronaldo fór frá Manchester United.
Fjölskyldan bjó í Manchester í átján mánuði en Ronaldo og United riftu samningi hans undir lok árs 2022.
Ronaldo hélt til Al-Nassr í Sádí Arabíu og hefur spilað þar síðan. „Þegar Cris sagði mér að hann væri að fara til Al-Nassr var ég svo fegin, ég vildi ólm fara frá Manchester,“ segir Georgina í nýjum þáttum frá sér á Netflix.
„Ég vissi að eitthvað stórt kæmi, ég var mjög glöð með að enda í Sádí Arabíu.“
Hún segir lífið í Sádí Arabíu hafa verið erfitt til að byrja með en svo hafi allt farið á flug. „Þetta gerðist allt svo fljótt.“
„Í byrjun var þetta mjög erfitt, við bjuggum á hóteli í svo langan tíma.“
„Það voru margir dagar þar sem ég vildi ekki hitta neinn en ég var mjög spennt.“