Það fór fram stórleikur í Bestu deild karla í kvöld þegar Breiðablik tók á móti Víkingi. Leikurinn var liður í 14. umferð en var spilaður í kvöld þar sem bæði lið eru í Evrópukeppni.
Leikurinn í kvöld var fremur rólegur lengi vel og ekki sama flugeldasýning og einhverjir vonuðust eftir.
Jason Daði Svanþórsson kom Blikum yfir á 77. mínútu en þar gerði hann vel í að skila sér inn á teig Víkings og setti smekklega fyrirgjöf Viktors Karls Einarssonar í netið.
Það stefndi í 1-0 sigur heimamanna en í uppbótartíma skoraði Gísli Gottskálk Þórðarson fyrir Víking. Óhætt er að segja að Anton Ari Einarsson hafi átt að gera betur í marki Blika.
Valdimar Þór Ingimundarson fékk gott færi til að skora sigurmark fyrir Víking í blálokin en tókst það ekki. Lokatölur 1-1.
Úrslitin þýða að Víkingur er enn á toppi deildarinnar, nú með 22 stig, 3 meira en Blikar sem eru í öðru sæti.