Lið KA var á Reykjavíkurflugvelli um einum og hálfum tíma fyrir leikinn gegn Stjörnunni í Bestu deild karla á sunnudag. Vakti þetta furðu þáttastjórnenda Þungavigtarinnar en Kristján Óli Sigurðsson sagði frá þessu í nýjasta þætti þeirra.
Stjarnan vann leikinn 5-0 og er KA í fallsæti með aðeins 5 stig eftir átta umferðir.
„Þetta var leikur kattarins að músinni. Ég fékk veður af því að KA menn hafi lent á Reykjavíkurflugvelli 15:30 í gær og leikurinn byrjaði 17:00. Þá á eftir að taka farangurinn, koma sér út í rútu eða bíla,“ sagði Kristján.
„Þetta getur ekki verið. Ég bara kaupi þetta ekki,“ skaut Ríkharð Óskar Guðnason inn í.
Kristján tók til máls á ný.
„Það var maður staddur á Reykjavíkurflugvelli sem sendi mér þetta. Hann spurði mig hvort þetta væri eðlilegt. Þetta er langt frá því að vera eðlilegt og endurspeglast kannski í þessum úrslitum á Samsung-vellinum.“
Ríkharð fletti því næst upp fluginu og benti á að vélin hafi lent 15:04.
„Þá eru þeir á vellinum um hálf fjögur,“ benti Kristján þá á.
Mikael Nikulásson var með þeim í setti að vanda en hann spyr sig af hverju KA reyndi ekki að færa leikinn.
„Af hverju fer KA ekki bara fram á að leikurinn sé klukkan sex? Það er hvort sem er ekki flogið heim eftir þetta.“