Sádiarabíska félagið Al-Hilal er sagt vera á eftir Rafael Leao, leikmanni AC Milan. Þetta kemur fram í portúgölskum miðlum, en Leao er þaðan.
Eins og flestir vita hafa Sádar sankað að sér stjörnum undanfarið ár eða svo og hinn 24 ára gamli Leao gæti verið næstur inn um dyrnar.
Samkvæmt fréttum er faðir hans á leið til Sádí til að heyra hvað Al-Hilal hefur upp á að bjóða.
Ljóst er að Leao myndi þéna ansi vel hjá Al-Hilal, sem er til að mynda með Neymar innanborðs. Þá er klásúla kappans hjá AC Milan upp á 175 milljónir evra ekki talin vandamál fyrir Sádana.
Leao er með 14 mörk og jafnmargar stoðsendingar fyrir AC Milan á þessari leiktíð.
Al-Hilal er þegar búið að sigra sádiarabísku deildina þó tveir leikir séu eftir af tímabilinu.