Joe Hart tilkynnti fyrr á árinu að hann myndi leggja skóna á hilluna eftir tímabilið en hann er kominn með nýtt starf nú þegar.
Þessi 37 ára gamli markvörður er á mála hjá Celtic og stefnir í að hann vinni skoska meistaratitilinn í þriðja sinn í vor.
Þá var Hart lengi hjá Manchester City þar sem hann vann Englandsmeistaratitilinn tvisvar. Einnig hefur hann spilað fyrir lið eins og Tottenham og Burnley.
Nú segir Daily Mail frá því að Hart verði einn af sérfræðingum BBC í kringum Evrópumótið í sumar. Hann á 75 A-landsleiki að baki fyrir England og ætti að geta nýtt reynslu sína í því starfi.
Þá hefur Premier League Productions þegar hlerað hann varðandi það að vera spekingur í kringum ensku úrvalsdeildina á næstu leiktíð. Hart gæti því átt framtíðina fyrir sér sem sparkspekingur.
Hart hefur þó einnig rætt við sitt fyrrum félag City um að verða sendiherra félagsins.