Tveir leikir fóru fram í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Á Old Trafford tóku heimamenn í Manchester United á móti Newcastle og það var vonarstjarna þeirra, Kobbie Mainoo, sem kom þeim yfir eftir hálftíma leik. Staðan í hálfleik 1-0.
Anthony Gordon jafnaði fyrir Newcastle snemma í seinni hálfleik en Amad Diallo kom United í forystu á ný í kjölfarið. Á 84. mínútu kom Rasmus Hojlund þeim svo í 3-1.
Lewis Hall minnkaði muninn fyrir Newcastle í uppbótartíma en nær komust gestirnir ekki. Lokatölur 3-2.
Lærisveinar Erik ten Hag eru í áttunda sæti, áfram á eftir Newcastle á markatölu.
Brighton tók þá á móti Chelsea. Hinn sjóðheiti Cole Palmer kom gestunum yfir á 34. mínútu og leiddu þeir fremur verðskuldað í hálfleik.
Christopher Nkunku tvöfaldaði forskot Chelsea svo eftir tæpar 20 mínútur af seinni hálfleik.
Á 88. mínútu fékk Reece James að líta rautt spjald fyrir ljóta tæklingu og heimamenn orðnir manni fleiri. Þeim tókst að nýta það í blálokin þegar Danny Welbeck minnkaði muninn en nær komst Brighton ekki. Lokatölur 1-2.
Þetta var fjórði sigur Chelsea í röð og er liðið í sjötta sæti. Stefnir það í Evrópukeppni á ný. Brighton siglir lignan sjó um miðja deild.