Knattspyrnufélagið Valur hefur ráðið Hallgrím Heimsson yfirþjálfara barna- og unglingastarfs í fótbolta hjá félaginu. „Mikill fengur,“ segir framkvæmdastjórinn sem ætlar að fjölga uppöldum leikmönnum í efstu deildum karla og kvenna.
Hallgrímur er 28 ára Vestmannaeyingur og hefur þjálfað yngri flokka hjá Val auk þess sem hann er aðstoðarmaður Péturs Péturssonar hjá meistaraflokki kvenna.
Þrátt fyrir ungan aldur er Hallgrímur sprenglærður þjálfari með BSc gráðu í íþróttafræði, mastersgráðu í íþróttavísindum og þjálfun auk mastersgráðu í heilsufræði og kennslu.
Hallgrímur tekur við af Eysteini Húna Haukssyni sem var samkvæmt heimildum 433.is rekinn úr starfi á dögunum.
Hallgrímur er sonur Heimis Hallgrímssonar, fyrrum landsliðsþjálfara Íslands og núverandi landsliðsþjálfara Jamaíka.
„Það er ljóst að Hallgrímur er einn sá efnilegasti sem við eigum í dag og ljóst að þetta er mikill fengur fyrir félagið. Hann er vel skólaður í þessum fræðum með tvær mastersgráður og hefur komið inn til okkar af miklum krafti. Það er alveg ljóst hvert verkefnið hjá okkur er. Það mun fjölga gríðarlega í hverfinu hér á næstu árum og í dag eigum við aðeins einn uppalinn leikmann í Bestu deild karla. Þessu ætlum við að breyta og ráðning Hallgríms er liður í því,“ segir Styrmir Þór Bragason framkvæmdastjóri Vals.