Valur Gunnarsson, fyrrum markvörður Leiknis telur að KR hafi verið í of miklum rembingi til að reyna að sannfæra fólk um að Gregg Ryder sé rétti maðurinn til að stýra liðinu.
Ryder er á sínu fyrsta tímabili með KR og byrjaði vel, liðið vann tvo fyrstu leiki tímabilsins en hefur svo ekki unnið í síðustu fjórum umferðum.
Rætt hefur verið og ritað um Ryder síðustu daga eftir að Óskar Hrafn Þorvaldsson sagði upp í Noregi, hann er þó ekki að taka við. „Hann var spurður út í Óskar Hrafn, hann sagðist hafa tekið við liðinu og að mesta pressan væri hjá KR. Sagðist þurfa að gera betur,“ sagði Elvar Geir Magnússon í Innkastinu á Fótbolta.net.
Valur tók þá til máls í þættinum. „Það sem hefur stuðað mig við KR og Ryder, mér finnst þetta fyndið. Þeir eru svo mikið að geðjast áhorfendum, fyrst þegar hann var ráðinn þá bauð honum öllum í bjór,“ sagði Valur.
Hann segir dæmi úr leiknum þar sem maður var mættur inn í boðvang KR að taka upp. „Það kemur innkast í fyrri hálfleik, þá er social media gæi í boðvanginum hjá KR. Eigum við ekki bara að einbeita okkur að boltanum, mér finnst þessi Ryder tími hjá KR varðandi þetta. Mér finnst þeir einbeita sér of mikið af hlutum út á við.“
Valur segir þó að það sé frábært að mæta á KR-völl í dag, þar sé mikið gert til að hafa góða umgjörð. „Ég er líka mjög ánægður með KR, það er gaman að fara á völlinn. Þú labbar í gegn og færð Bæjarins Bestu, svo eru sölubásar upp í stúku. Getur keypt bjór og eitthvað að drekka, það er rosaleg bæting. Ef þið vinnið ekki leiki, þá er það til lítils.“
„Á meðan þið eruð ekki að vinna, þá er þetta kjánalegt. Þessi Ryder tími, er svona eins og þeir séu að hugsa hvort stuðningsmenn séu sáttir.“