Ange Postecoglou, stjóri Tottenham, segir það algjört bull að hans menn vilji ekki vinna Manchester City á morgun þar sem það myndi hjálpa nágrönnunum og erkifjendunum í Arsenal.
Arsenal treystir á Tottenham á morgun en vinni City leikinn ekki er titillinn í höndum Skytanna fyrir lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar um næstu helgi.
Ljóst er að hluti stuðningsmanna Tottenham hefur engan áhuga á að sjá liðið gera Arsenal greiða annað kvöld.
„Ef þú skoðar samfélagsmiðla vilja 99 prósent að Tottenham tapi gegn Manchester City. Segðu mér að það sé ekki þinn heimur. Þá þarftu að leita þér hjálpar,“ sagði Postecoglou í dag.
„Ég skil að það sé rígur milli liða en ég mun aldrei skilja þá sem vilja sjá lið sitt tapa,“ bætti hann við.