Samkvæmt norska miðlinum TV2 lætur Óskar Hrafn Þorvaldsson af störfum sem þjálfari Haugesund vegna valdabaráttu innan félagsins.
Óvæntar fréttir bárust af því í morgun að Óskar hefði sagt upp störfum í gær. Óskar samdi við félagið í október í fyrra en þar áður hafði náð eftirtektarverðum árangri með Breiðablik og meðal annars komið liðinu í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Aðeins sex umferðir eru búnar af norsku úrvalsdeildinni og hefur gengi Haugesund verið upp og niður. Liðið er með sex stig eftir tvo sigurleiki og fjóra tapleiki.
Meira
Norskum almenningi brugðið yfir fréttum af Óskari – „Hvað í fjandanum?“
Samkvæmt TV2 vildi Óskar taka með sér sinn eigin aðstoðarmann þegar hann tók við á sínum tíma en fékk það ekki í gegn. Sancheev Manoharan var því honum til aðstoðar. Greinandi var þá Paul André Farstad og markmannsþjálfari Kamil Rylka.
Á Óskar að hafa verið mjög ósammála hinum þjálfurunum er kom að fótboltanum sem Haugesund átti að spila.
Óskar á því að hafa beðið félagið um að fá inn nýjan aðstoðarþjálfara í stað Manoharan en varð ekki að ósk sinni. Sá hann því ekkert annað í stöðunni en að hætta.