Lengjudeild karla hófst í gær og mæta Þórsarar til leiks annað kvöld. Markvörður liðsins, Aron Birkir Stefánsson, ræddi við 433.is á kynningarfundi deildarinnar í vikunni. Þar var Þór spáð þriðja sæti.
„Þetta hefur gengið ágætlega í vetur. Þetta er bara spá og það er alltaf skemmtilegt en ég er bara spenntur fyrir þessu,“ sagði hann.
Þór stefnir upp um deild en hann bendir á að þeir séu alls ekki þeir einu.
„Ég held að það sé nú þannig hjá 90 prósent af liðunum í þessari deild. En við erum klárlega að stefna á að vinna sem flesta leiki í sumar og gera okkar besta.
Við erum að stefna að því að koma inn í mótið á góðu róli. Það hefur gengið vel í vetur og markmiðið er að halda því áfram og gera enn betur,“ sagði Aron, en nánar er rætt við hann í spilaranum.