Enska úrvalsdeildin hefur ákveðið að hætta með vetrarfrí frá og með næstu leiktíð.
Undanfarin tímabil hafa liðin fengið stutt vetrarfrí í byrjun árs en þess í stað byrjar tímabilið nú aðeins seinna, upp úr miðjum ágúst. Menn fá því lengra sumarfrí.
Nokkrar breytingar munu taka gildi í enska boltanum á næsta ári en þegar hefur verið tilkynnt að endurteknir leikir í enska bikarnum heyri sögunni til.
Jurgen Klopp, fráfarandi stjóri Liverpool, var einn af þeim sem hafði talað sterklega með umræddu vetrarfríi. Taldi hann það nauðsynlegt eftir álagið í kringum jólahátíðina.