Veskið er áfram galopið í Vesturbæ og vilja KR-ingar halda áfram að eyða í nýja leikmenn ef rétti kosturinn er í boði. Frá þessu sagði Guðmundur Benediktsson í Stúkunni á Stöð2 Sport í gær.
KR hefur bætt hressilega í hóp sinn í vetur og fer liðið vel af stað í Bestu deild karla, fullt hús stiga eftir tvær umferðir.
Gregg Ryder hefur bætt við leikmönnum og síðast var það Eyþór Wöhler sem var keyptur frá Breiðablik og fleiri gætu komið inn.
„Samkvæmt mínum heimildum, Eyþór Wöhler mættur og samkvæmt mínum heimildum er veskið enn opið í Vesturbænum. Þeir eru tilbúnir að bæta í hópinn ef rétti maðurinn kemur inn,“ sagði Gummi Ben í Stúkunni.
KR hefur litið vel út í upphafi móts en líklega hefði Ryder áhuga á því að bæta við leikmanni í varnarlínu sína sem er nokkuð þunnskipuð.