Fyrrum knattspyrnustjórinn Fabio Capello hvetur sitt fyrrum félag Juventus að klófesta Mason Greenwood í sumar.
Englendingurinn er sem stendur á láni hjá Getafe frá Manchester United. Hann á ár eftir af samningi sínum við enska félagið en ekki er talið að hann eigi framtíð þar vegna mála utan vallar.
Það er því nokkuð ljóst að Greenwood verður seldur í sumar. Hann hefur átt góðu gengi að fagna með Getafe á leiktíðinni, er með átta mörk og fimm stoðsendingar í öllum keppnum.
„Ég hef heyrt um Mason Greenwood. Efnilegur leikmaður Manchester United sem á í vandræðum í einkalífinu en hefur endurfæðst hjá Getafe,“ segir Capello, sem spilaði og stýrði Juventus á sínum ferli sem leikmaður og þjálfari. Hann var einnig landsliðsþjálfari Englands.