Franski miðillinn L’Equipe greinir frá hreint ótrúlegri frétt í dag af stórstjörnunni Neymar sem flestir kannast við.
Neymar hefur lengi verið einn þekktasti fótboltamaður heims en hann spilar í dag í Sádi Arabíu.
Meiðsli hafa sett strik í reikning Neymar þar í landi en hann var fyrir það hjá Paris Saint-Germain í sex ár.
L’Equipe er nokkuð virtur miðill í Frakklandi og hefur rætt við nokkra aðila sem bæði spiluðu og störfuðu fyrir PSG.
Samkvæmt heimildum blaðsins þá mætti Neymar drukkinn vinnuna í þónokkur skipti áður en hann fékk skipti til Sádi Arabíu á síðasta ári.
Neymar virðist hafa misst áhugann algjörlega í París en hann hefur áður verið ásakaður um að spila tölvuleiki fram á nótt og mætti ítrekað seint til æfinga.
Neymar ku hafa sýnt PSG litla sem enga virðingu undir lok ferilsins þar og miðað við þessar fregnir mætti hann drukkinn á æfingar félagsins mun oftar en einu sinni.
Þessi 32 ára gamli Brassi hefur lítið sem ekkert spilað eftir komu sína til Sádi Arabíu en hann sleit krossband í landsleik Brasilíu í október á síðasta ári.*
Einnig er tekið fram að Neymar hafi eignast marga vini á tíma sínum hjá PSG en missti fljótt virðingu flestra vegna hegðun sinnar og þar á meðal Kylian Mbappe sem er besti leikmaður liðsins í dag.