Samkvæmt Calciomercato mun Inter reyna að fá Anthony Martial í sumar ef félaginu tekst ekki að kaupa Albert Guðmundsson frá Genoa.
Segir í frétt Calciomercato að Albert sé efstur á lista Inter yfir sóknarmenn í sumar.
Albert hefur skorað tólf mörk í Seriu A á þessu tímabili og er eftirsóttur af mörgum liðum.
Calciomercato segir að Albert sé dýrari kostur enda mun Genoa fara fram á um og yfir 30 milljónir evra fyrir hann.
Martial getur hins vegar komið frítt þar sem samningur hans við Manchester United er að renna út og fær hann ekki nýjan samning.
Calciomercato segir að ef Martial endar ekki hjá Inter fari hann líklega til Fenerbache sem vilja krækja í hann.