Ólafur Jóhannesson telur að ÍA verði í vandræðum í Bestu deild karla í sumar með núverandi leikmannahóp og miðað við fyrsta leik liðsins á tímabilinu gegn Val.
ÍA tapaði 2-0 fyrir Val í fyrstu umferð og var Ólafur ekki hrifinn. Í flestum spám fyrir leiktíðina voru Skagamenn nokkuð vel fyrir ofan fallsvæðið en knattspyrnuþjálfarinn reynslumikli er ekki á sama máli.
„Með þetta lið verða þeir í fallbaráttu. Ég er klár á því,“ sagði hann í Stúkunni á Stöð 2 Sport í gær.
Rúnar Már Sigurjónsson er á leið til ÍA eftir fjölda ára í atvinnumennsku og telur Ólafur að það gæti breytt einhverju.
„Þegar Rúnar kemur þarna inn gæti þetta breyst. Hann er öflugur leikmaður og getur stýrt og stjórnað. En eins og liðið spilaði í þessum leik finnst mér það ekki nógu gott,“ sagði hann í Stúkunni.