Þeir sem vilja kaupa sér miða á síðasta heimaleik Jurgen Klopp sem stjóra Liverpool þurfa að reiða fram ansi hraustlegar fjárhæðir.
Klopp tilkynnti í vetur að yfirstandandi leiktíð yrði hans síðasta sem stjóri Liverpool. Síðasti leikur tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni er gegn Wolves á heimavelli og vonast Klopp og hans menn til að lyfta þar titlinum.
Leikurinn gegn Wolves verður jafnframt sá síðasti með Klopp í brúnni yfirhöfuð ef Liverpool mistekst að komast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar í vor.
Það er löngu uppselt á leikinn gegn Wolves en þó eru miðar til sölu í endursölu.
Ódýrasti slíki miðinn er á rúmlega 250 þúsund íslenskar krónur. Sæti á besta stað kosta þó mun meira og sæti nær varamannabekkjum kosta yfir milljón.
Allra dýrustu sætin, alveg upp við varamannabekk Liverpool, kosta rúmar fimm milljónir íslenskra króna.