Ísak gekk í raðir Rosenborg frá Breiðablik fyrir síðustu leiktíð eftir frábært tímabil á Íslandi fyrir tveimur árum síðan. Hann hefur skorað sjö mörk í 21 leik með norska liðinu en glímt við meiðsli undanfarið.
„Hann endar síðasta tímabil á að skora fjögur mörk í fimm leikjum. Það skilur þetta enginn úti í Noregi,“ sagði Gunnar Birgisson í nýjasta þætti Dr. Football.
„Maður sá það í athugasemdunum undir færslunni frá kúbbnum. Það var bara allt vitlaust,“ skaut Arnar Sveinn Geirsson inn í.
„Mögulega vonast félagið til að hann komi sterkari til baka eftir meiðsli og það eru einhverjar klásúlur í samningnum þar sem hann getur verið kallaður til baka. Mögulega er þetta það besta fyrir báða aðila ef menn eru ekki sáttir í sambandinu,“ sagði Gunnar sem telur komu Ísaks auka sigurlíkur Blika í Íslandsmótinu.
„Ég held þetta auki líkurnar þeirra, hvort það dugi til að fara upp fyrir Víking og Val verður að koma í ljós. Ég held að Ísak sé þannig leikmaður að það hefðu öll lið tekið hann.“
Rosenborg og Breidablik er enige om en utlånsavtale for Isak Thorvaldsson.
22-åringen reiser dermed tilbake til gamleklubben og hjemlandet i en avtale som strekker seg ut sesongen.
Lykke til, Isak 🖤🤍https://t.co/ROn2NhsHQm pic.twitter.com/frRoFYa5So
— Rosenborg Ballklub (@RBKfotball) April 5, 2024
Eins og áður sagði voru stuðningsmenn Rosenborg allt annað en sáttir með það að Ísak væri á förum. Það má sjá ef litið er á nokkrar af athugasemdum undir færslu félagsins um brottför Ísaks.
„Hvað í ósköpunum á þetta að þýða? Mjög góður leikmaður þegar hann er heill, það sáum við síðasta haust,“ skrifaði einn netverjinn.
„Hvað í fjandanum?“ skrifaði einn einfaldlega og margir tóku í sama streng.
„Er þetta síðbúið aprílgabb? skrifaði annar.
Einnig mátti sjá ummæli eins og „þetta er heimskulegt“ og „tímabilið er ónýtt.“