Það er allt í rugli hjá knattspyrnusambandi Kamerún sem hefur nú ráðið inn mann að nafni Marc Brys sem tekur við karlalandsliðinu.
Brys er 61 árs gamall og starfaði síðast í Belgíu en hann tekur við af Rigobert Song sem lét af störfum í mars.
Það var ríkisstjórn Kamerún sem ákvað að ráða Brys til starfa og hafði stjórn knattspyrnusambandsins ekki hugmynd um hans komu.
Ekki einu sinni Samuel Eto’o, forseti knattspyrnusambandsins, vissi af því að Belginn væri að taka við keflinu fyrir HM 2026.
Knattspyrnusambandið gaf frá sér langa yfirlýsingu og viðurkennir þar að ákvörðunin hafi komið þeim gríðarlega á óvart.
Brys var síðast þjálfari OH Leuven í Belgíu og hefur aldrei þjálfað landslið á sínum ferli.