Í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is var að sjálfsögðu rætt um leik íslenska karlalandsliðsins gegn Úkraínu á þriðjudag, sem því miður tapaðist naumlega.
Um var að ræða úrslitaleik um sæti á EM í sumar. Úkraína vann 2-1 eftir að Albert Guðmundsson hafði komið Íslandi í 0-1.
Í stöðunni 0-1 fyrir Ísland komu Úkraínumenn boltanum í netið en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Íslensku leikmennirnir voru nokkuð vissir um að markið yrði dæmt af og enginn vissari en markaskorarinn Albert.
„Sást það í sjónvarpinu þegar Albert átti að taka miðjuna eftir markið sem var dæmt af Úkraínu, að hann sendi boltann bara beint aftur á Hákon í markinu?“ spurði þáttstjórnandinn Helgi Fannar Sigurðsson, sem var á leiknum gegn Úkraínu.
Hrafnkell Freyr Ágústsson, annar þáttstjórnenda og Halldór Garðar Hermannsson, fyrirliði Keflavíkur í körfubolta, svöruðu neitandi.
„Hann í raun sagði bara með þessu að þetta yrði alltaf rangstaða,“ bætti Helgi þá við.
Hrafnkell telur að miðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason hafi líka verið með þetta á hreinu.
„Sverrir vissi það strax. Hann var með auga á leikmanninum á fjær,“ sagði hann.