Mark Lawrenson, fyrrum varnarmaður Liverpool, er nokkuð viss um að Mohamed Salah fari frá félaginu í sumar. Hann veit hvern hann vill fá í staðinn.
Salah á aðeins ár eftir af samningi sínum í sumar og er hann áfram orðaður við Sádi-Arabíu, sem gæti heillað Egyptann.
Lawrenson, sem varð Englandsmeistari fimm sinnum og vann Evrópubikar með Liverpool á níunda áratugnum, vill sjá Liverpool sækja Jarrod Bowen í sumar ef Salah fer.
„Hann getur spilað alls staðar í fremstu víglínu, gefur þér mörk og leggur hart að sér, líkarvarnarlega. Þú ert ekki að fara að fá annan Mo Salah,“ segir hann, en Bowen er með 14 mörk í 28 leikjum með West Ham í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni.
„Ég er nokkuð viss um að Salah fari en ég er ekki viss um hver kemur. Það vantar miðvörð og það gæti verið í forgangi. Þetta snýst ekki bara um hver kemur í stað Salah.“