Leicester City hefur ákveðið að reka mann að nafni Willie Kirk úr starfi en hann sá um að þjálfa kvennalið félagsins.
Kirk komst í ensk blöð fyrr í þessari viku en hann er ásakaður um að hafa átt í ástarsambandi með leikmanni kvennaliðsins.
Fyrr í mánuðinum var Kirk sendur í tímabundið leyfi á meðan Leicester rannsakaði málið og hefur nú komist að niðurstöðu.
Leicester virðist þar með staðfesta að meint ástarsamband hafi átt sér stað en nafn leikmannsins er ekki gefið upp.
Kirk var hjá Leicester í um tvö ár en hann er 45 ára gamall og hefur einnig þjálfað lið eins og Everton í kvennaboltanum.
Það er stranglega bannað fyrir leikmenn og þjálfara að eiga í ástarsambandi og var Leicester ekki lengi að taka ákvörðun um framtíð Kirk.
Samkvæmt enskum miðlum er Kirk miður sín en hann hafði stefnt á að þjálfa Leicester til lengri tíma.