Það var rætt um landsleik Íslands og Úkraínu í Íþróttavikunni hér á 433.is í gær en strákarnir eru úr leik eftir tap gegn Úkraínu.
Sigurliðið tryggði sér sætið í lokakeppni EM í Þýskalandi í sumar en það voru Úkraínu menn sem unnu að þessu sinni, 2-1.
Frammistaða Íslands var þó alls ekki slæm og þá sérstaklega ekki í undanúrslitum gegn Ísrael í 4-1 sigri.
Helgi Fannar Sigurðsson, Hrafnkell Freyr Ágústsson og Halldór Garðar Hermannsson ræddu frammistöðu Íslands í þættinum.
,,Maður sá bjartar hliðar framundan og maður var brattur því þetta var allt annað en síðustu ár. Maður sá samheldni, liðsanda og leikplan sem virkaði, leikmenn sem fúnkera saman og fleira,“ sagði Hrafnkell.
,,Mér fannst þeir ná að pinna okkur niður fullsnemma og þeir voru með okkur það lengi að menn voru orðnir of þreyttir of snemma. Þeir skora 1-1 markið of snemma og ég hefði viljað halda til 70. allavega þá held ég að þeir hefðu orðið stressaðir. Þetta var alltaf á leiðinni því miður.“
Halldór tekur undir þessi ummæli og segir að frammistaða liðsins hafi minnt á gullárin eða þegar íslenska liðið var upp á sitt besta.
,,Þetta minnti á gullárin og úrslitaleik um að komast á EM, þetta verður ekkert mikið stærra og mér fannst liðsheildin skína í gegn. Það vissu allir sitt hlutverk og það var óheppni að tapa þessu.“