Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Wroclaw
Jóhann Berg Guðmundsson verður ekki á blaðamannafundi Íslands í dag ásamt Age Hareide landsliðsþjálfara. Sverrir Ingi Ingason situr fundinn.
Blaðamannafundurinn er í tilefni leiksins gegn Úkraínu á morgun en um er að ræða úrslitaleik um sæti á EM. Venjan er að fyrirliði sitji með þjálfara á fundunum. Sverrir var með bandið í fjarveru Jóhanns í síðasta leik, en hann var meiddur.
Þátttaka Jóhanns í leiknum á morgun er í vafa vegna meiðslanna og gætu þessar fregnir þýtt að hann verði ekki með.
Leikur Íslands og Úkraínu hefst klukkan 19:45 annað kvöld á íslenskum tíma.