Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Wroclaw
Age Hareide, þjálfari Íslands, vildi ekki gefa upp hvaða leikmann hann teldi vera mestu ógn Úkraínu á blaðamannafundi í dag. Liðin mætast í úrslitaleik um sæti á EM á morgun.
„Af hvaða leikmanni Úkraínu stafar mesta ógnin fyrir ykkur?“ spurði Stefán Árni Pálsson á blaðamannafundi í Póllandi í dag.
„Ég ætla ekki segja þér það,“ svaraði Hareide með bros á vör. Hann tekur ekki sénsinn á að gefa slíkt upp.
Norski þjálfarinn tjáði sig þó um styrkleika Úkraínumanna í heild.
„Þeir eru með sterkt lið líkamlega, eru snöggir og þeir vilja sækja. Við þurfum að ráða við það og láta þá ekki hafa boltann á hættulegum stöðum. Ef það tekst getum við komið í veg fyrir að þeir skapi færi.“
Leikurinn hefst klukkan 19:45 annað kvöld.