Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
Landsliðsfyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson veit ekki sem stendur hvort hann taki annað tímabil með Burnley eða fari annað í sumar. Hann var spurður út í þetta í viðtali við 433.is á hóteli íslenska landsliðsins í Búdapest í gær.
Samningur Jóhanns á að renna út í sumar en möguleiki er á að framlengja hann.
„Ég er með möguleika á að framlengja um eitt ár. Við verðum að sjá hvað gerist. Ég er svosem lítið að spá í því. Þetta er einn leikur í einu,“ sagði Jóhann.
Burnley hefur valdið nokkrum vonbrigðum á leiktíðinni og er í næstneðsta sæti, fimm stigum frá öruggu sæti.
„Þetta er búið að vera erfitt tímabil með Burnley og ekki búið að ganga eins og við bjuggumst við. Það er skrýtið að segja það en mér finnst við hafa verið að spila vel. En við verum búnir að fá á okkur of mörg mörk og ekki skorað nóg. Það er það sem fótbolti snýst um.“
Ítarlegra viðtal við Jóhann er í spilaranum.