Joey Barton fyrrum miðjumaður Manchester City og fleiri liða er oft með skrýtnar skoðanir og hann skellti fram einni þannig í gær.
Þar urðaði hann yfir Kyle Walker bakvörð Manchester City og enska landsliðsins en Walker er í verkefni með landsliði Englands.
Á æfingu mætti Walker með eyrnalokk og í þunnum buxum undir stuttbuxunum og það finnst Barton hræðilegt.
„Menningin er svo léleg, að æfa með eyrnalokk og í leggings,“ segir Barton.
„Munu ekki vinna neitt,“ segir hann einnig en Walker hefur unnið alla stærstu titlana sem hægt er að vinna með félagsliði sínu.
„Of margir veikleikar, vilja frekar líta út eins og Drake frekar en Bobby Moore.“
Barton hefur fengið á baukinn fyrir þessa skoðun sína enda hefur Walker verið afar farsæll á ferli sínum.