Íþróttavikan, sem kemur að venju út alla föstudaga, var með breyttu sniði þessa vikuna sökum landsleiks Íslands gegn Ísrael. Þáttastjórnandinn Helgi Fannar Sigurðsson er staddur í Búdapest, þar sem leikurinn fer fram og því var þátturinn tekinn upp með fjarfundarbúnaði þetta skiptið. Hrafnkell Freyr Ágústsson var á sínum stað í settinu og með þeim félögum var Hörður Snævar Jónsson.
Í kvöld er komið að leiknum gegn Ísrael en um er að ræða undaúrslitaleik í umspili um sæti á EM. Sigurvegarinn mætir svo Úkraínu eða Bosníu í hreinum úrslitaleik um sæti á mótinu.
Age Hareide landsliðsþjálfari sagði á dögunum að honum liði ekki of vel með að spila leikinn gegn Ísrael vegna stríðsástands á Gasa. Hefur hann verið harðlega gagnrýndur af Ísraelum fyrir þetta.
„Ég held að flestir Íslendingar séu sammála ummælum hans en kannski var tímasetningin ekki sérlega skynsamleg út frá fótboltalegum sjónarmiðum. En ef þú færð þessar spurningar, af hverju ekki bara að vera heiðarlegur?“ sagði Hörður um málið.
„Þetta verður örugglega tekið upp ef við töpum illa á móti Ísrael, að hann hafi kveikt í þeim.“