Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
„Það er góð stemning í hópnum og mikil tilhlökkun. Þetta er stór leikur sem við erum að fara að spila,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Jóhann Berg Guðmundsson á blaðamannafundi í dag fyrir leikinn gegn Ísrael á morgun.
Liðin mætast í undanúrslitum umspils um sæti á EM og sigurvergarinn spilar hreinan úrslitaleik við Úkraínu eða Bosníu.
„Við erum tveimur leikjum frá því að komast á EM og það er frábært að vera í svoleiðis séns. Það eru allir klárir í þetta verkefni,“ sagði Jóhann.
„Við erum búnir að eiga tvær góðar æfingar saman og fundi líka, við þurfum að fara yfir klippur af þeim og sjá hvernig við ætlum að vinna þá á morgun. Að vera tveimur leikjum frá því að komast á stórmót er einstakt tækifæri.“
Leikurinn hefst klukkan 19:45 annað kvöld að íslenskum tíma.