Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Búdapest
„Það er mikil tilhlökkun. Það er verðugt verkefni fyrir höndum. Þetta er úrslitaleikur, gerast ekki mikið stærri. Vonandi klárum við þann leik með stæl og stefnum á annan úrslitaleik eftir viku,“ sagði Hjörtur Hermannsson landsliðsmaður um komandi leik gegn Ísrael við 433.is í dag.
Ísland og Ísrael mætast á fimmtudag hér í Búdapest, en ekki er spilað í Ísrael vegna ástandsins á Gasa. Sigurvegarinn mætir Úkraínu eða Bosníu í hreinum úrslitaleik um sæti á mótinu.
Eins og aðrir gerir Hjörtur, sem er leikmaður Pisa á Ítalíu, tilkall til að byrja leikinn á fimmtudag.
„Ég geri mér vonir um það eins og aðrir leikmenn í hópnum. Ég held að allir séu klárir í að leggja hönd á plóg.“
Ísland og Ísrael mættust tvisvar í Þjóðadeildinni árið 2022. Báðum leikjum lauk með jafntefli.
„Þetta er mikið af sömu leikmönnum (hjá þeim) svo það gefur góða raun að hafa spilað gegn þeim fyrir ekki svo löngu. En að baki liggur önnur undankeppni, þeir búnir að þróa sinn leik og við líka, svo það má ekki leggja of mikinn þunga á það,“ sagði Hjörtur.
Ítarlegra viðtal við hann má nálgast í spilaranum.