Það ráku margir upp stór augu er þeir sáu að Ben White var ekki hluti af hópi enska landsliðsins fyrir komandi vináttuleiki gegn Brasilíu og Belgíu. Samkvæmt landsliðsþjálfaranum gaf hann ekki kost á sér.
White hefur ekki verið með enska landsliðinu síðan á HM 2022 en þá yfirgaf hann hópinn í miðju móti. Fjölmiðlar sögðu það vegna ósættis við aðstoðarþjálfarann Steve Holland.
„Miðað við hvernig hann hefur staðið sig er ekki hægt að segja að hann eigi ekki skilið að vera valinn. En Edu (yfirmaður knattspyrnumála hjá Arsenal) hringdi í síðustu viku og sagði að Ben vildi ekki vera valinn í þetta skiptið. Það er leitt því hann er leikmaður sem mér líkar mjög vel við,“ sagði landsliðsþjálfrinn Gareth Southgate á blaðamannafundi í dag.
Hann útilokar engan veginn að White komi inn í landsliðið í framtíðinni.
„Dyrnar munu standa honum opnar því hann er mjög góður leikmaður. Það er ekkert illt á milli okkar og ekki Steve Holland heldur. Ég þarf að taka það fram vegna frétta sem ég hef lesið.“