Gylfi sneri aftur á fótboltavöllinn í haust með Lyngby, auk þess sem hann sneri aftur í íslenska landsliðið, en rifti samningi sínum í Danmörku í vetur vegna meiðsla. Fór hann í endurhæfingu á Spáni, þar sem hann æfði svo með Fylki og síðar Val í æfingaferð liðsins.
Gylfi er uppalinn hjá FH en spilaði einnig með Breiðabliki áður en hann hélt út í atvinnumennsku ungur að árum.
„Ef Gylfi er að koma heim, einn besti fótboltamaður okkar í sögunni, þá finnst mér „pathetic“ að hann fari í Val. Sorrí. Þú ert kominn heim, gerðu þetta af viti, farðu á miðjuna hjá FH og tæklaðu og djöflastu,“ segir Vilhjálmur Freyr Hallsson, annar þáttastjórnenda Steve Dagskrá og FH-ingur.
Rætt hefur verið um að atvinnumannaumhverfið hjá Val heilli Gylfa.
„Er þetta út af einhverjum morgunæfingum? Þú getur örugglega hitt Aron Pálmars (leikmann FH í handbolta) í lyftingasalnum og tekið góða rækt þar.“
Gylfi sagði eitt sinn að markmiðið væri að snúa aftur í FH áður en ferlinum lyki.
„Ég nenni ekki að hlusta á þetta. Hann er að verða 35 ára og hefur æft vel lengi. Nú ertu bara kominn heim og það er kominn tími til að standa við það sem þú sagðir, að þú myndir enda ferilinn í FH. Ekki fara í Val. Hættu bara frekar en að fara í Val,“ segir Vilhjálmur enn fremur.