Það vakti athygli í fyrra þegar fyrrum landsliðsmaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson gekk í raðir uppeldisfélagsins ÍA eftir langan feril í atvinnumennsku erlendis.
Björn hafði ekki spilað leik síðan 2021 vegna meiðsla og svo fór að hann spilaði ekkert með ÍA síðasta sumar. Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, var gestur í sjónvarpsþætti 433.is og var hann spurður út í Björn.
„Hann flutti síðasta vor á Akranes, sem er gríðarlegur styrkur fyrir okkur sem bæjarfélag. En því miður, hann fór í aðgerð á hné. Hann var í vandræðum með bak og hné sem gerir það að verkum að það er ekki talið ráðlegt að hann spili,“ sagði Jón Þór.
„Mögulega hefði hann náð einu ári með okkur eða eitthvað svoleiðis en það hefði verið ansi dýru verði keypt,“ sagði hann enn fremur og því útlit fyrir að skórnir séu komnir á hilluna hjá þessum 32 ára gamla sóknarmanni.